Lítil saga af litlum bæ

Saga fjölskyldanna tveggja sem hófu búskap á Litlabæ í Skötufirði árið 1895 er talandi dæmi um fátækt fólk sem byrjaði með tvær hendur tómar en tókst með dugnaði og elju að rísa til bjargálna og sjá fyrir stórum fjölskyldum. Það lifði af því litla sem landið gaf af sér en öðru fremur þeirri lífsbjörg sem það sótti á gjöful fiskimið.

 

Fyrstu ábúendur voru hjónin Guðfinnur Einarsson og Halldóra Jóhannsdóttir sem eignuðust 15 börn en af þeim komust 9 þeirra til fullorðinsára og hjónin Finnbogi Pétursson og Soffía Þorsteinsdóttir sem eignuðust 8 börn  og komust sjö þeirra til upp. Fyrstu áratugina voru fleiri heimilsfastir að Litlabæ og er talið að flest hafi verið þar tuttugu og fimm.